145. löggjafarþing — 55. fundur,  16. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[01:07]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hafi hv. þingmanni þótt mín ræða ágæt áðan þá var hans miklu betri.

Það liggur svona í þessu að stjórnarandstaðan hefur lagt fram tillögur sem eru meira en 10 milljarða virði. Þær eru 16 milljarða virði. Hún hefur hins vegar lagt á móti tillögur til tekjuaukningar.

Mín stóra gagnrýni á fjárlagafrumvarpið er að í fyrsta lagi sé ég að aðhald hefur ekki tekist, vegna þess að ég er þeirrar skoðunar að mjög víða í ríkiskerfinu megi beita meira aðhaldi. Ég rifja það upp að hér er hv. þm. Höskuldur Þórhallsson að tala við vanan mann. Hann er að tala við mann sem á sínum tíma skar niður ferðakostnað utanríkisráðuneytisins um 70%, bara svo það liggi algerlega klárt fyrir. Og með aðstoð hv. þm. Birgis Ármannssonar og fleiri vökulla þingmanna tókst mér líka að eiga frumkvæði að því að skera niður um 30% frá ætluðum útgjöldum ráðuneytisins frá 2008, vitaskuld með þann mikla þrýsting sem kreppan var.

En mín stóra gagnrýni er að eftir að hafa séð stöðu ríkissjóðs batna í fimm ár erum við núna komin í þá stöðu að ný ríkisstjórn í góðu árferði er þriðja árið að hjakka í sama farinu, hún er svona við núllið eins og hv. þingmaður sagði, rétt fyrir neðan núllið. Ég tel að það sé vegna þess að hún hefur veikt tekjustofna ríkisins stórlega. Hv. þingmaður getur kallað það skattfrekju af minni hálfu. Hann gerði það líka á síðasta kjörtímabili og það var mælt af OECD. Hvar lá Ísland þá? Miðja vegu.