145. löggjafarþing — 55. fundur,  16. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[01:43]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Já, það er hárrétt hjá hv. þingmanni, ég held að mörgum stjórnarþingmönnum líði ekkert of vel. En þeir eru hlýðnir, allir nema einn, þessa stundina og láta sig hafa það að lúta agavaldi hæstv. forsætisráðherra sem hefur sýnt það æ ofan í æ að hann virðist vera ófær um að eiga eðlileg samtöl við mótherja sína í stjórnmálum. Ég vona að það gangi betur með samherja þó að samskipti hans og hæstv. menntamálaráðherra, út af Ríkisútvarpinu, bendi til þess að honum virðist almennt ekki falla vel að eiga samskipti og ná í gegnum samtöl og rökræður að lempa hlutina og leiða þá til niðurstöðu sem fleiri geta sætt sig við.

Nú er hann kominn í stríð við þjóð sína. Eins og hv. þingmaður benti á þá eru til mælingar fyrir þessu. Mælingarnar sýna að yfir 90% Íslendinga, óháð búsetu, aldri, stjórnmálaskoðunum og kyni, vilja að fjármunum sé forgangsraðað í heilbrigðiskerfið. Ríkisstjórnin svarar því með raunniðurskurði til Landspítalans. Það er svar ríkisstjórnar Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar við áherslum almennings varðandi heilbrigðismál. Svo þegar fólk er spurt — og Öryrkjabandalag Íslands lét gera könnun á því hvort það treysti sér til að lifa á strípuðum almannatryggingum — þá telja yfir 90% það ekki duga til framfærslu. Þetta vill ríkisstjórnin heldur ekki hlusta á.