145. löggjafarþing — 55. fundur,  16. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[01:46]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Nei, það hafa nefnilega ekki komið málefnaleg rök. Og það er svo skrýtið að forstjóri Landspítalans og yfirstjórn Landspítalans — öflugir stjórnendur sem fóru í gegnum mjög erfiða tíma ásamt öðrum Íslendingum með erfið verkföll, nánast í ár voru yfirstandandi verkföll á sjúkrahúsinu; sjúkrahúsið er búið að vera í niðurskurði nánast frá síðustu aldamótum — sem eru framsæknir, jákvæðir og öflugir stjórnendur komu fyrir fjárlaganefnd og lýstu því yfir að í fjárlagafrumvarpinu væru algerlega ófullnægjandi fjárframlög. Það yrði ekki hægt að uppfylla lagaskyldu sjúkrahússins.

Hvaða rök fengu þeir? Þau voru sökuð um andlegt ofbeldi. Það eru rökin sem voru færð fram. Fólk sem beitir slíkri taktík er ekki með rökin í sínu liði. Og hæstv. heilbrigðisráðherra, það veldur mestum vonbrigðum, stendur ekki með sinni stofnun og berst fyrir henni; hann er ekki hér til að svara fyrir það hvort hann hafi reynt að fá inn aukið fjármagn. Hann á að hafa lagt það til að gerð yrði rekstrarúttekt á Landspítala. Mér finnst sjálfsagt að farið sé yfir rekstur Landspítalans, en að koma með það sem mótsvar við kröfum um aukið fé inn í rekstur spítalans er beinlínis vantraust í garð stjórnenda. Þeir hafa þó það mikinn þroska til að bera að þeir fögnuðu úttektinni enda vita þeir að sjúkrahúsið er rekið fyrir allt of lítið fé.