145. löggjafarþing — 55. fundur,  16. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[01:50]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Við erum á miðri aðventunni og hér er orðið allmikið um kvöld- og næturfundi. Sjaldnast hefur það verið svo að forseti hafi látið svo lítið að láta okkur vita af þeim áformum sínum heldur vindur fundinum fram og seint og um síðir áttar maður sig á því út frá svipbrigðum forseta eða öðru látæði hversu stutt er í lok fundarins. Í ljósi þess sem hér hefur komið fram að fyrirhugaðir eru fundir bæði í fastanefndum og undirnefndum í fyrramálið þá held ég að við verðum að óska eftir því mjög eindregið við forseta að hann fari að láta þennan fund duga fyrir kvöldið. Það eru töluvert margir á mælendaskrá enn þá og alveg ljóst að þeirri mælendaskrá verður ekki lokið vegna þess að ef menn ætla að halda áfram að tala til morguns, þá endar það náttúrlega með því að fólk þarf að fara á fundi og væntanlega ætlum við ekki að láta sólarhringinn bráðna saman í eina allsherjarumræðu. Þannig að ég spyr hæstv. forseta um það hvenær umræðunni ljúki.