145. löggjafarþing — 55. fundur,  16. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[02:00]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Nóg er nóttin, sagði draugurinn. En ég hef nú lýst þeirri skoðun áður við virðulegan forseta að henni eigi maður að eyða með ástvinum sínum heima við en ekki hér í salnum hjá honum, það sé snöggtum skynsamlegri nýting á tímanum fyrir margra hluta sakir.

En ég vil taka undir með þingmönnum og hvetja forseta til að tilgreina það hvenær hann hyggst ljúka fundinum svo að fólk geti gert sínar ráðstafanir, pantað bíla og annað slíkt sem því tengist. Um leið vil ég kalla eftir því að hæstv. heilbrigðisráðherra sérstaklega, Kristján Þór Júlíusson, sem hefur ekki þorað til þessarar umræðu í allan dag láti að minnsta kosti svo lítið ef hér á að halda eitthvað aðeins áfram að koma og hlusta á umræðuna eins og hæstv. menntamálaráðherra gerði í gær þótt hann hafi eðlilega ekki treyst sér til að ræða efnislega það stóra núll sem skilað var í Ríkisútvarpsmálum.