145. löggjafarþing — 55. fundur,  16. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[02:04]
Horfa

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Það er nú ekki til mikils mælst að forsvarsmenn komi, þ.e. ráðherrar málaflokkanna. Það er hefð að þeir mæti til umræðunnar. Það er hefð fyrir því ef kallað er eftir forsvarsmönnum málaflokka, ráðherrum eða formönnum nefnda, þá séu þeir sóttir, ég tala nú ekki um þegar fjárlagaumræðan liggur undir. Það er því ekki til mikils mælst, fyrst farið er fram á það og það er ásetningur hæstv. forseta að funda hér áfram úr því hann gefur engin svör, að forseti kalli til þá ráðherra sem óskað hefur verið eftir að séu viðstaddir umræðuna. Það er þó það minnsta sem hægt er að gera til að heiðra þá umræðu sem hér á sér stað. Hér eru stjórnarandstæðingar í umræðu um fjárlagafrumvarpið með spurningar, athugasemdir og rökræðu sem ráðherrar eiga að vera vitni að og vera hér til svara ef ástæða er til.