145. löggjafarþing — 55. fundur,  16. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[02:13]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Það er rétt sem hér hefur komið fram að kallað var eftir nærveru hæstv. félagsmálaráðherra og hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra í dag og þau komu bæði hingað. Hæstv. menntamálaráðherra tók þátt í umræðunum. Það var nú svo skrýtið að maður var þakklátur fyrir það að hæstv. ráðherra skyldi hafa látið svo lítið að koma en auðvitað er það sjálfsagt. Staðan er einhvern veginn orðin þannig að maður býst ekki við að hæstv. ráðherrar sinni kalli forseta Alþingis. Það er auðvitað algerlega óásættanlegt. En hæstv. heilbrigðisráðherra hefur ekki látið sjá sig og búið er að kalla eftir honum í allan dag, og í gær, og hér eru undir stór mál. Það er ekki bara Landspítalinn og niðurskurður upp á rúman milljarð sem blasir þar við heldur líka útboð á heilsugæslustöðvum á höfuðborgarsvæðinu (Forseti hringir.) sem við þurfum að eiga orðastað við hann um.