145. löggjafarþing — 55. fundur,  16. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[02:30]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka þingmanninum svarið. Þetta er nefnilega áhyggjuefni, ekki bara ríkisreksturinn sem sjálfstæðis- og framsóknarmenn guma af. Ég tek undir með hv. þingmanni, það er mjög nauðsynlegt að minna á það hvernig þetta varð framkvæmanlegt því það er alveg ljóst að við værum ekki hér í þessari stöðu — sem betur fer erum við í þessari stöðu — nema af því að þessi ákvörðun var tekin á sínum tíma og við bárum gæfu til að gera það. Það sýnir kannski hvernig núverandi ríkisstjórnarflokkar mátu stöðuna á þeim tíma, þeir meta hana kannski ekki nægilega vel núna og fara ekki með fé eins og við mundum best telja.

Það hefur svolítið verið rætt um alls konar met í hinu og þessu af hálfu ríkisstjórnarinnar. Ég velti því upp af því að ég var í samtali hér fyrr í kvöld við varaformann fjárlaganefndar og hann taldi ekki að við værum með svo lág framlög til heilbrigðismála eins og ég hélt fram, að það kæmi fram í skýrslu OECD að við séum ekki að veita nema mjög lítinn hluta í raun af tekjum okkar í heilbrigðismál og innviði heilbrigðismála. Við höfum náttúrlega rætt hér í langan tíma stöðuna í því en það sem maður hefur áhyggjur af þegar við horfum til næsta árs og Landspítalans eða annarra heilbrigðisstofnana er að þá er ekki bara Landspítalinn í vanda. Það eru fleiri heilbrigðisstofnanir í vanda. Það virðist vera svo að ríkisstjórnin ýti því frá sér og ég sé það fyrir mér að þegar við förum í eftirlit (Forseti hringir.) með framkvæmd fjárlaga þá munum við standa frammi fyrir stöðu sem við höfum talað um hér að muni koma upp en ríkisstjórnin neitar að horfast í augu við hana. Getur hv. þingmaður ekki verið sammála því að það verði mjög fljótlega verkefni okkar í fjárlaganefnd að reyna að finna út úr því hvað beri að gera?