145. löggjafarþing — 55. fundur,  16. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[02:35]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka þingmanninum ræðuna. Það vill nú svo óheppilega til að spurningin sem ég ætlaði að spyrja var: Hver er ástæðan fyrir því að afkomubatinn er ekki meiri en hann er á milli ára? En hv. þingmaður er svo dulspakur að hún svaraði spurningunni eiginlega í þann veginn sem ég var að standa upp til þess að spyrja hennar og á þann veg að um væri að kenna lélegri fjármálastjórn og hægri áherslum.

Hv. þingmaður hefur töluverða reynslu úr fjármálaráðuneytinu og af vinnu í fjárlaganefnd, bæði sem meirihlutamaður á fyrra kjörtímabili og svo núna. Það hefur komið skýrt fram í umræðum hér að vinnubrögð fjárlaganefndar séu óviðunandi. Þá langar mig að biðja hv. þingmann að draga það saman í fáeinum setningum: Hvað er það sem gerir vinnubrögð núverandi fjárlaganefndar óviðunandi?

Fjöldamargt hefur verið talið upp, stórt og smátt. En fyrir manneskju sem er utan fjárlaganefndar þá mundi ég þiggja stuðning við að forgangsraða því og greina skóginn frá trjánum þannig að við sjáum heildarmyndina.

Mig langar síðan að spyrja hv. þingmann, af því að eins og margoft hefur komið fram þá er fjárlagafrumvarpið það stjórnarfrumvarp sem endurspeglar best áherslur meiri hlutans hverju sinni, og er kannski pólitískasta plaggið af öllum þeim sem rædd eru hér á Alþingi: Ef við horfum á stefnuna sem dregin hefur verið upp undanfarin tvö og hálft til þrjú ár, þ.e. bæði í tekjum og útgjöldum, afkomu, fjármagnskostnað, vinnubrögð o.s.frv.: Hvað gerist ef þessi ríkisstjórnarstefna verður ofan á (Forseti hringir.) enn um sinn? Hæstv. forseti notar nú stundum það orðalag „enn um sinn“. Á hvaða leið erum við ef við gerum til dæmis ráð fyrir þessari stefnu næstu tíu árin?