145. löggjafarþing — 55. fundur,  16. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[02:38]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Fyrst að vinnunni í hv. fjárlaganefnd. Auðvitað erum við með stór verkefni í nefndinni sem við þurfum að fara yfir. En ég get sagt það hér að það sem mér hefur fundist há þeirri vinnu er það að ekki er trúnaður á milli manna og traust. Það háir starfinu og samstarfi á milli minni hluta og meiri hluta.

Þegar ég var í fjárlaganefnd á síðasta kjörtímabili þá var staðan önnur. Við vorum auðvitað líka með stór verkefni, stærri og erfiðari, en það var skilningur á milli manna og það var trúnaður. Menn áttu trúnaðarsamtöl og gátu komist að samkomulagi, alla vega um feril mála. Þó að menn væru ósammála um niðurstöðuna þá var hægt að ræða um það hvernig hægt væri að vinna málin. En það er lítið um það núna og það er meira um að menn vinni bara hver í sínu lagi og að traust ríki ekki á milli manna. Það er ekki gott.

En hv. þingmaður spurði hvernig ég sæi framtíðina fyrir mér með hægri stjórn hér næstu tíu árin og ég get bara alls ekki hugsað mér það. Ég held að það verði ekki bara heilbrigðiskerfið sem mundi líða fyrir það heldur alveg augljóslega menntakerfið líka. Það líst mér ekki á. Ef öfgafrjálshyggjan og brauðmolakenningin, sem allir eru nú löngu hættir að trúa á úti í heimi, verður dregin hér inn og gamaldagspólitík þá er velferðarsamfélagið í hættu.