145. löggjafarþing — 55. fundur,  16. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[02:40]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni svörin. Það hefur komið berlega í ljós að vinnubrögð fjárlaganefndar eru ekki eins og best verður á kosið og hv. þingmaður, eftir sína miklu reynslu, sker hér úr um að helst sé um að kenna skorti á trúnaði í fjárlaganefnd.

Mig langar þá að spyrja hv. þingmann: Er hægt að byggja upp traust í svona vinnu þar sem það er ekki fyrir hendi? Er það alfarið í höndum meiri hlutans eða getur minni hlutinn lagt eitthvað fram í þágu slíkra vinnubragða?

Síðan sem er kannski nánast heimspekileg spurning: Ræðst þetta vantraust af stjórnarstefnunni á einhvern hátt? Stundum hefur mér fundist að þessi nálgun, meirihlutaræðisnálgun, feli í sér að dekra við vantraustið vegna þess að það þjónar ákveðnum markmiðum að halda minni hlutanum illa upplýstum o.s.frv. til að viðhalda meirihlutaræðinu. Mig langar að biðja þingmann að bregðast við því.

Síðan segir hv. þingmaður að heilbrigðiskerfið og menntakerfið mundi líða fyrir áframhaldandi hægri stefnu og velferðarkerfið væri í hættu. Hvers konar kerfi mundum við þá sjá? Telur hv. þingmaður að við værum að tala um kerfi þar sem fólk mundi kaupa sig inn í menntakerfið eða kaupa sig inn í heilbrigðiskerfið? Hversu brött yrði þessi þróun, telur hv. þingmaður, ef svo heldur fram sem horfir bara miðað við þessa þróun og það pólitíska upplegg sem hægri stjórnin hefur lagt hér?