145. löggjafarþing — 55. fundur,  16. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[03:02]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Tvennt hefur vakið athygli mína í þessari umræðu varðandi heilbrigðismálin annars vegar og kjaramál eldri borgara og öryrkja hins vegar. Það er í fyrsta lagi viðhorf hæstv. fjármálaráðherra þegar hann segir hér í ræðu að við þingmenn þurfum að koma því inn í hausinn á okkur að það þurfi að vera einhvers konar hvatar í kerfinu. Þá velti ég fyrir mér hvort hv. þingmaður átti sig á því hvað ráðherrann á við. Hvaða hópar eru þetta? Þetta eru oft langveikir aðilar sem geta ekki unnið fyrir sér. Þetta er líka fólk sem hefur skilað ævistarfi sínu og er komið á eftirlaun og á að fara að hafa það gott; geta lifað með reisn eftir að hafa skilað áratugastarfi á vinnumarkaði. Þá veltir maður fyrir sér hvaða þankagangur er að baki því að kalla hér, með þjósti inn í hópinn, að það þurfi að vera hvatar í kerfinu. Hvatar til hvers? Ég spyr hvort eldri borgarar eigi almennt bara að halda áfram að vinna. Eða hvernig sér hv. þingmaður það fyrir sér?

Svo er hitt viðhorfið: Hv. þm. Karl Garðarsson segir hér í umræðum að hann telji að það sé ómögulegt að verða við því sem Landspítalinn hefur kallað eftir, þ.e. tæplega 3 milljarða framlagi til að halda í horfinu. Ef það verði látið eftir þeim kalli þeir bara á aðra 3 milljarða og síðan aðra 3 milljarða og úr verði endalaus krafa um nýja og nýja 3 milljarða. Þetta er hundalógik; eins og verið sé að rétta frekum einstaklingum fjármuni sem þeir þurfa ekki á að halda.

Ég hef áhyggjur af þessum viðhorfum. Ef þetta eru viðhorfin að baki þeim tillögum sem liggja fyrir í fjárlagafrumvarpinu er við ofurefli að etja hjá okkur sem viljum gera betur.