145. löggjafarþing — 55. fundur,  16. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[03:04]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er nú ekki þannig, þótt fjármálaráðherra telji sig kannski vera öflugan, að hann geti sagt við fatlaðan mann: Tak sæng þína og gakk. Menn eru ekki komnir á þann stað, svo að ég gerist kristileg af því að jólin eru að koma. En mér hefur þótt þessi umræða mjög sérstök. Líka það að setja aldraða og öryrkja undir sama hatt; að þetta séu svona vandræðahópar sem haldi alltaf áfram að fjölga sér og heimta meira.

Þetta hefur verið niðurlægjandi orðræða, finnst mér, hjá sumum stjórnarþingmönnum og hæstv. fjármálaráðherra og líka mikil neikvæðni hjá hæstv. forsætisráðherra þegar hann skellti því framan í okkur hér á mánudaginn að ekki yrði um neitt samið við stjórnarandstöðuna. Við erum ekkert að kalla eftir samningum við okkur. Við erum að vekja athygli á því að það þurfi að semja við aldraða og öryrkja um þeirra kjör. Við erum bara ágætlega sett hér, þingmenn, og höfum það bara býsna gott miðað við marga aðra sem þurfa að lifa á lúsarlaunum. Það er auðvitað skömm að því, eins og ég hef minnst á hér áður í ræðu, að eldri borgarar, sem hafa unnið erfiðisvinnu frá því þeir voru fimmtán ára, fái ekki nema tæpar 190 þús. kr. útborgaðar á mánuði. Þetta er eitthvað svo ótrúlegt. Það er ekki eins og hægt sé að veita sér mikið fyrir þá fjármuni.