145. löggjafarþing — 56. fundur,  16. des. 2015.

störf þingsins.

[10:11]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F):

Virðulegi forseti. Undanfarna daga höfum við séð umræður um það í fjölmiðlum að margir í atvinnulífinu hafi áhyggjur af því að krónan sé að verða of sterk. Styrkist krónan meira geti það til að mynda farið að valda áhyggjum fyrir ferðaþjónustuna og þá miklu uppbyggingu sem þar er í gangi.

Það er ekki mjög langt síðan menn höfðu áhyggjur af því að við losun gjaldeyrishafta og í framhaldi af því mundi krónan veikjast mjög mikið. Það yrði gríðarlegt útstreymi á gjaldeyri þegar snjóhengjan svokallaða yrði losuð og það mundi hafa í för með sér að krónan mundi falla. Um leið og við þurfum að velta því fyrir okkur af hverju krónan er að styrkjast svona mikið og hvernig við þurfum að bregðast við því, þá er það ánægjuefni að við skulum ekki vera á þeim stað að tala um að aflétta gjaldeyrishöftum með tilheyrandi veikingu krónunnar.

Í þessu sambandi er mikilvægt að skoða sögu málsins. Af hverju var talað um það að krónan mundi veikjast? Staðreyndin er sú að við erum í dag að taka á þrotabúum föllnu bankanna með þeim hætti að þau eru að afsala sér fjármunum og eignum sem fyrri ríkisstjórn ætlaði því miður að greiða út úr landinu, greiða út úr hagkerfinu. Þess vegna höfðu menn áhyggjur af því að krónan mundi veikjast.

Um þetta ritaði meðal annars formaður Samfylkingarinnar greinar og pistla og sagði þá um gjaldeyrishöftin:

„Ein leið í þessu efni væri sú að í aðildarviðræðunum yrði samið um að evrópski Seðlabankinn mundi veita fyrirgreiðslu til að unnt yrði að fjármagna útflæðið allt strax í upphafi eða á fárra ára tímabili, með endurgreiðslu yfir lengra tímabil. Slík lausn mundi væntanlega valda því að krónan félli minna en ella við afnám haftanna.“ (Forseti hringir.)

Fyrri ríkisstjórn ætlaði að greiða erlendum kröfuhöfum fjárhæðirnar (Forseti hringir.) sem núverandi ríkisstjórn gerir kröfu um að verði afhentar ríkissjóði. Þetta er grundvallarstefnumunur á stefnu núverandi ríkisstjórnar og fyrri ríkisstjórnar.


Efnisorð er vísa í ræðuna