145. löggjafarþing — 56. fundur,  16. des. 2015.

störf þingsins.

[10:14]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Á sama tíma og við ræðum fjárlögin af miklum móð er hagkerfið okkar á fleygiferð og kannski í orðsins fyllstu merkingu, jólaverslunin gengin í garð og yfirlýsing bankastjóra Landsbankans staðfesti það raunar sem vissulega er rétt að hér er blússandi góðæri. Við erum á eilítið öðrum stað í hagsveiflu en Norðurlöndin og evruríkin. Það er ýmislegt sem vinnur með okkur en það er líka ýmislegt sem ber að varast og gerir okkur erfitt fyrir, til að mynda í hagsveiflujöfnun.

Í Noregi treysta menn nú um stundir á það að krónan muni veikjast til að hjálpa öðrum atvinnuvegum en olíuiðnaðinum til að halda hagkerfinu gangandi en þar í landi hafa menn ekki orðið fyrir jafn miklar hremmingum í 15 ár í fjárfestingum í þessari atvinnugrein, sem er olían.

Lágt verð og lág verðbólga í Evrópu og á Norðurlöndunum hefur hjálpað okkur með hagstæðari viðskiptakjör og haldið aftur af verðhækkunum hérlendis en þrátt fyrir allt erum við með 5,75% stýrivexti sem eru töluvert hærri en á þeim slóðum sem ég nefndi. Það gerir okkur erfitt fyrir, það er ákveðin hætta fólgin í því. Það er hætta á innstreymi fjármagns og að krónan haldi áfram að styrkjast óeðlilega mikið sem dregur úr afgangi eða eykur hallann með tilheyrandi aukaverkunum á sama tíma fyrir atvinnulífið. Við erum að upplifa góðæri sannarlega en verkefnið fram undan er að verja stöðugleika með skynsamlegum sveiflujöfnunar- og sparnaðaraðgerðum.


Efnisorð er vísa í ræðuna