145. löggjafarþing — 56. fundur,  16. des. 2015.

störf þingsins.

[10:24]
Horfa

Elín Hirst (S):

Virðulegi forseti. Mig langar að gera að umræðuefni íslenska banka en þær fregnir hafa borist að allir bankar á Íslandi séu bestu bankar á Íslandi. (Gripið fram í.) Þetta kemur fram í fréttamiðlinum Kjarnanum.

Þetta er mjög áhugavert, sér í lagi að sjá hvaða mat liggur að baki umræddum verðlaunum. Eins og ég og fleiri höfum oft minnst á hér á Alþingi þá starfa bankar á Íslandi á fákeppnismarkaði þar sem allir bjóða það sama og það er enginn hvati hjá viðskiptavininum að skipta um banka eins og eðlilegt væri ef frjáls samkeppni réði ríkjum.

Þetta ástand er náttúrlega algjörlega óviðunandi og óásættanlegt. Í nýjustu könnun MMR kemur fram að 70,6% svarenda treysta íslenska bankakerfinu frekar lítið eða mjög lítið.

Aftur að verðlaununum góðu. Samkvæmt fréttamiðlinum Kjarnanum þurftu íslensku bankarnir sjálfir að sækja um þessi verðlaun. Arion banki hefur verið valinn banki ársins á Íslandi árið 2015 af tímaritinu The Banker sem er gefið út af The Financial Times. Tímaritið Euromoney verðlaunar líka íslenskan banka og það er Íslandsbanki sem hefur unnið til þessara verðlauna, ekki bara í ár heldur þrjú ár í röð. Landsbankinn er líka bestur á Íslandi. Landsbankinn hefur fengið verðlaun frá tímaritinu Global Finance Magazine sem besti banki á Íslandi.

Allir eru sigurvegarar nema viðskiptavinirnir, en það er kannski bara aukaatriði.


Efnisorð er vísa í ræðuna