145. löggjafarþing — 56. fundur,  16. des. 2015.

störf þingsins.

[10:29]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Í síðustu viku sóttu fulltrúar Alþingis loftslagsráðstefnuna í París þar sem náðist sögulegt samkomulag undir lok þeirrar viku, samkomulag þar sem þjóðir heims náðu saman um ákveðin markmið til þess að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, ákveðin markmið í því hvernig megi styðja hin fátækari ríki heims til að aðlagast loftslagsbreytingum og takast á við það sem er líklega stærsta viðfangsefni þessarar aldar. Loftslagsbreytingar munu hafa áhrif á okkur öll en ekki síst fátæka fólkið í þessum heimi. Ég mundi segja að í loftslagsbreytingum birtist stóru viðfangsefni stjórnmálanna, þ.e. hvernig við getum tryggt mannsæmandi kjör handa sem flestum borgurum, ekki bara á Íslandi heldur í þessum heimi, og hvernig við ætlum að takast á við umhverfisáhrif af því sem mannkynið hefur tekið sér fyrir hendur.

Það liggur líka fyrir að þó að samkomulagið sé sögulegt er gríðarleg heimavinna eftir. Það sem við ættum að vera að ræða hér er hvernig Ísland ætlar að uppfylla þau markmið sem hafa verið sett. Hvar eru til dæmis áætlanirnar um rafvæðingu samgangna og uppbyggingu innviða til að rafvæða samgöngur? Hvar eru áætlanir um auknar almenningssamgöngur? Hvar er atvinnustefna sem byggir á því að draga eigi úr losun en ekki auka hana? Hvernig ætlum við nákvæmlega að ná þeim markmiðum sem hafa verið sett fram? Þar mun þjóðþingið skipta verulegu máli. Ég hefði talið eðlilegt að í þessari viku væri umræða á vegum hæstv. umhverfisráðherra um það hvað felst í samkomulaginu og hvaða vinna er fyrir höndum fyrir Alþingi Íslendinga til þess að hægt sé að uppfylla þau markmið sem hafa verið sett.

Ég veit ekki hvort herra forseti getur komið slíkri umræðu á en að minnsta kosti væri mjög mikilvægt að koma henni á sem fyrst, hvenær sem það getur orðið. Við megum ekki láta þessi markmið bara verða einhver orð á blaði. (Forseti hringir.) Það hvílir rík ábyrgð á hv. þingmönnum allra flokka um að þessum markmiðum verði náð og ég hvet hæstv. forseta til að skipuleggja aðkomu Alþingis að þessu máli.


Efnisorð er vísa í ræðuna