145. löggjafarþing — 56. fundur,  16. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[11:02]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það var auðvitað talað opið um þau áform. Að vísu kom fram hjá embættismönnum að ekki væri búið að leggja niður kröfulýsingu og ekki búið að búa til kerfi sem væri í kringum útboðið, en þetta væri það sem stefnt væri að. En þetta er nefnilega hægt að gera. Sjúkratryggingalögin eru þannig að hægt er að gera þetta án þess að taka umræðuna í þingsal. Það er líka galli, finnst mér, á lögum um framhaldsskóla að hægt er að leggja niður skóla, hægt er að renna opinberum skóla undir einkaskóla án þess að taka umræðuna hér. Það gerðist einmitt með Iðnskólann í Hafnarfirði sem var annar af hreinum starfsmenntaskólum landsins. Þegar hann var sameinaður Tækniskólanum, sem er einkaskóli, voru þar um 500 nemendur ef ég man rétt. Fjölgunin í Tækniskólanum hefur ekki orðið svona mikil. Það hefur því orðið fækkun á nemendum í starfsmenntun við sameininguna.

Það er annað sem mér finnst vera merkilegt við stefnumótun sem kemur fram í breytingartillögum. Það er ekki bara að þær komi í gegnum hæstv. ríkisstjórn heldur er það meiri hluti fjárlaganefndar sem tekur sér stöðu og gerir það alveg sérstaklega gagnvart málefnum sem hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra er með og leggur til að heimilað verði af hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra að selja húsnæði Þjóðskjalasafnsins sisvona þó að hæstv. menntamálaráðherra sé nýbúinn að vinna með stefnumörkun sem gengur út á annað. Sama er með Ríkisútvarpið þar sem forustumenn fjárlaganefndar hafa talað mjög harkalega gegn því að þar verði rekstrarfé. (Forseti hringir.) Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hann finni fyrir þessari þróun einnig.