145. löggjafarþing — 56. fundur,  16. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[11:07]
Horfa

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég og hv. þm. Ögmundur Jónasson áttum hér ágætan orðastað í gær, eða í nótt réttara sagt, um markaðs- og einkavæðingaráform í heilbrigðisþjónustunni. Þetta er gríðarlega mikilvægt mál og mikilvægt að það sé rætt upphátt en ekki að það fari svona hljótt eins og tilhneigingin hefur verið. Mig langar aðeins að ræða við hv. þingmann um hina heimspekilegu hlið þessa máls, markaðsvæðingaráform innan samfélagsins. Nú er til það sem kallað er „Trade in Services Agreement“ eða TiSA, sem eru 50 þjóða samtök ríkustu þjóða heims um að ná verslunarsamningum milli ríkja. Það er mikil og þung einkavæðingar- og markaðsvæðingarkrafa innbyggð í starfi og áformum þessara samtaka. Þetta er öflug en hljóð hreyfing í heiminum í átt til einkavæðingar. Nú veit ég að Íslendingar hafa í umræðunni hér, þetta hefur ekki farið mjög hátt í umræðunni, en Íslendingar hafa til dæmis undanskilið ákveðna þætti heilbrigðisþjónustunnar í sambandi við þetta. En uppi eru rökstuddar efasemdir um að þeir fyrirvarar muni halda. TiSA stefnir að því að gera heilbrigðisþjónustuna að markaðsvöru á heimsvísu. Nú höfum við séð í umræðunni áform um einkarekin sjúkrahótel og læknamiðstöðvar til dæmis í tilteknum kvenlækningum varðandi brjóstakrabbamein og fleira þar sem sú þjónusta er kynnt eins og hver önnur markaðs- og verslunarvara. Hvernig horfir sú þróun við þingmanninum eins og ástatt er?