145. löggjafarþing — 56. fundur,  16. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[11:12]
Horfa

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við hv. þingmaður erum sammála um að gera þarf greinarmun á því hvaða þjónusta er til umræðu þegar við erum að ræða einkavæðingaráform. Það er munur á því að samkeppnisvæða framleiðslufyrirtæki eða þjónustu sem hefur kannski ekki með mannhelgina sjálfa og grunngildi okkar að gera. Í stjórnunarfræðum er gerður greinarmunur á einmitt þjónustu sem byggir á gæðum annars vegar og síðan því sem kalla má framleiðsluviðhorf sem eðlilegra sé að horfa til þegar verið er að markaðsvæða eða kalla fram samkeppni.

En nú hefur til dæmis reynslan í nágrannalöndunum verið sú þar sem menn hafa svolítið verið að fara þessa leið, að einkavæða t.d. hjúkrunarheimili og umönnunarstofnanir, að þar eru menn að hverfa frá þessu vegna þess að þessi samkeppnishvati virðist ekki hafa haft góð áhrif á gæði þeirrar þjónustu sem verið er að veita. Er þingmaðurinn sammála mér um að það sé meira virði í velferðarkerfinu að huga að gæðum þjónustunnar, að það eigi að vera útgangspunkturinn, en að ná fram samlegðaráhrifum og markaðslausnum og hagræðingu sem á miklu frekar við þegar við erum að tala um til dæmis framleiðslufyrirtæki og kjúklingabú? Mér finnst ekki hægt að leggja sömu mælikvarða á þessa ólíku þætti.