145. löggjafarþing — 56. fundur,  16. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[11:17]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Ég tek undir með hv. þm. Ögmundi Jónassyni um þetta efni. Það hlýtur að vekja nokkra athygli að þegar hæstv. menntamálaráðherra Illugi Gunnarsson og hæstv. velferðarráðherra Eygló Harðardóttir sem hafa stóra og viðkvæma málaflokka á sinni könnu víkja sér ekki undan því að koma til umræðunnar og skiptast á skoðunum um efni sem að þeim snúa skuli ráðherrann sem ber ábyrgð á þjóðarsjúkrahúsinu, hvers forstjóri segir að hafi ekki nægilega fyrir rekstri sínum á næsta ári, skera sig úr í því að treysta sér ekki til þess að koma til umræðunnar þegar eftir því er kallað. Það vekur spurningar um það hvort Kristján Þór Júlíusson hafi bara ekki efnisleg svör til þess að standa skil á stöðu Landspítalans í fjárlagatillögunum og þeim einkavæðingaráformum sem eru í heilsugæslunni þar.