145. löggjafarþing — 56. fundur,  16. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[11:40]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir gerir að umræðuefni það sem við höfum verið að tala um og gögn frá velferðarráðuneyti um hátt hlutfall atvinnulausra og öryrkja sem skorti efnisleg lífsgæði árið 2013 og segir að það séu 21,5% í fyrrnefnda hópnum, þ.e. meðal atvinnulausra, og 24,6% meðal öryrkja. Þetta eru auðvitað mjög sláandi tölur. Þetta eru allt saman hlutir sem við vitum og getum séð, gott ef þetta kemur ekki líka fram hjá Velferðarvaktinni eða hvar það er sem maður hefur séð þetta á sínum tíma, þetta er allt saman kunnuglegt. Þetta eru þær staðreyndir sem menn hafa fyrir framan sig þegar þeir taka ákvörðun um hvort eigi að hækka greiðslur til aldraðra og öryrkja í samræmi við það sem ég gerði að umtalsefni áðan. Ég hef aldrei heyrt t.d. formann eða varaformann fjárlaganefndar ræða um þessi atriði. Nei, það hefur aldrei verið. Þeir koma bara og þylja upp prósentuhækkanirnar og pikka út bita sem þeir telja að gangi best eins og ég gerði að umtalsefni áðan, en horfa ekkert til þess að ræða þessa hluti. Kannski kunna þeir ekki þetta tungumál, kannski vita þeir þetta ekki, ég veit það ekki.

Það er meðal annars vegna þessara sláandi talna sem velferðarráðuneytið heldur utan um og birtir að ég tala eins og ég hef gert fyrir því sanngjarna atriði að laun og greiðslur til aldraðra og öryrkja hækki afturvirkt eins og hjá öllum öðrum og þeir fái þessar 17 þús. kr. fyrir skatt, sem gæti verið í kringum 12 þús. kr. eftir skatt, sem er nú allt og sumt. Um það (Forseti hringir.) hefur þessi stóri ágreiningur snúist og mun vafalaust vera eitthvað áfram hér fram eftir degi.