145. löggjafarþing — 56. fundur,  16. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[11:51]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta virkar þannig að við fáum tækifæri til þess að koma í andsvör og spyrja hv. þingmenn sem halda ræður. Ég spurði hv. þingmann því að tölurnar eru hér, þær liggja alveg fyrir, en hann fer aldrei rétt með. Hann getur ekki einu sinni farið rétt með hvort var á vaktinni í gær, ég eða hv. þm. Vigdís Hauksdóttir, en það er aukaatriði. Hann vill alls ekki ræða staðreyndir.

Ég spurði hann einfaldlega: Er hann stoltur af því hvernig að þessu var staðið á síðasta kjörtímabili? Hann segir að það hafi verið (Gripið fram í.) tekið við gjaldþrota búi eftir ríkisstjórn Samfylkingarinnar og Sjálfstæðisflokksins. (KLM: Nei.) (Gripið fram í: Jú.) Ég verð að viðurkenna að ég var í þeirri ríkisstjórn. Ég man aldrei eftir neinum viðvörunarorðum þáverandi hæstvirtra ráðherra út af því ástandi sem kom upp. Ég man ekki eftir þeim. Það er aukaatriði. Höldum okkur bara við heilbrigðismálin. Af hverju vill hv. þingmaður ekki segja okkur hvort hann sé stoltur af því að gengið var sérstaklega í það að skera niður í heilbrigðismálum? Í tölum var miklu (Gripið fram í.) meira — þetta liggur fyrir í svari ykkar, þetta er svar sem ég fékk frá fyrrverandi hæstv. ráðherra, (Gripið fram í.) Steingrími J. Sigfússyni. Þetta er í þingskjölum. Það getur hver og einn skoðað. Ég heyri að hv. þingmanni og varaformanni Samfylkingarinnar, Katrínu Júlíusdóttur, finnst þetta óþægilegt (KaJúl: Þú veist …) og kallar fram í, virðulegi forseti, sem mér finnst allt í lagi. Ég bara bið hv. þingmann um að kynna sér svar fyrrverandi hæstv. fjármálaráðherra, Steingríms J. Sigfússonar. Þar liggur þetta allt fyrir. 68% af heildarfækkuninni var hjá heilbrigðisráðuneytinu, en hefði átt að vera 38% ef menn hefðu skorið niður á línuna.

Ég spyr aftur í mestu vinsemd, af því að hv. þingmaður er búinn að nota það orð: Er hann stoltur af því að hafa tekið heilbrigðismálin sérstaklega fyrir en hlífa öðru? Er hann stoltur af því eða skammast hann sín? Þetta er einföld spurning. Tölurnar tala sínu máli. Þetta er í þingskjölum. (Forseti hringir.) Ekki nema menn séu að halda því fram að síðasta ríkisstjórn hafi skrökvað að þinginu. Það er þá auðvitað (Forseti hringir.) alveg sérfrétt.