145. löggjafarþing — 56. fundur,  16. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[11:57]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Það er gott ef hv. formaður fjárlaganefndar hefur setið við umræðuna til klukkan að verða þrjú í nótt, enda er það hennar starf hér í þinginu að fylgjast með fjárlagaumræðunni. Ég held þó að það þurfi ekki að vera alls kostar að ástæðulausu að þingmenn tóku ekki allir eftir því, að kannski ruglist þar saman kvöld. Ég minnist þess að minnsta kosti að sérstaklega hafi verið kallað eftir því hér í fyrrinótt að hv. formaður fjárlaganefndar væri þá við umræðuna. Nú er það kunnara en frá þurfi að segja að mér hefur einu sinni yfirsést það að formaðurinn var hér í salnum þegar hann (Gripið fram í.) — ég bið um að það sé virt mér til betri vegar ef það var rangt. Ég varð ekki var við að hún væri þá við umræðuna, hún hefur kannski verið stödd annars staðar í húsinu að fylgjast með af sjónvarpi. Þá er það bara fagnaðarefni. Ég tel ekki að þetta sé tilefni til þeirra stóryrða sem hér hafa fallið.