145. löggjafarþing — 56. fundur,  16. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[11:59]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi hæstv. forseti. Ég biðst afsökunar á því ef ég hef farið kvöldavillt í þessu sambandi. Ef það var svo að hv. þm. Vigdís Hauksdóttir hafi verið á vakt í gærkvöldi, hún var hér í húsinu, var hv. þm. Guðlaugur Þór ekki á vaktinni, hann var heima. Í fyrrakvöld var það hins vegar þannig að hv. þm. Vigdís Hauksdóttir var heima en hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson á vaktinni.

Það er ekki stórmál, virðulegi forseti, þótt ég ruglist þarna á einum degi til eða frá. En staðreyndirnar eru þær að formaður og varaformaður fjárlaganefndar hafa skipt með sér vöktum hér á kvöldin og næturnar undanfarna daga og ég held að ekki sé þörf á þeim stóru orðum sem hv. þingmaður setur hér fram þótt ég hafi farið villur vega hvað dagana varðar. Mér finnst ýmislegt annað hér alvarlegra en það.