145. löggjafarþing — 56. fundur,  16. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[12:10]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna, sem mér fannst hófstillt og um margt alveg prýðileg. Ef við ræðum saman á þennan hátt held ég að þetta verði uppbyggilegri umræða en við höfum séð hingað til. Hv. þingmaður talaði í stórum hluta ræðu sinnar um það, sem er rétt, að við séum ósammála um margt. Við erum þó vonandi sammála um að byggja upp heilbrigðiskerfi sem mun þurfa að takast á við gríðarlega stór verkefni út af breyttri aldurssamsetningu. Í heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu erum við með fimm lækna undir fertugu. Það eru jafn margir og þeir sem eru yfir sjötugt. Það er heilsugæslan sem við erum að reyna að efla til að létta álagi af Landspítalanum.

Mér finnst það ekki sannfærandi og mér finnst það ótrúlega ósanngjarnt að tala á þennan hátt. Menn geta leikið sér og tekið einstaka þætti út en fjárlögin hafa hækkað um 17% frá því að þessi ríkisstjórn tók við; 25% hafa farið í hækkun í heilbrigðismálum sem er gríðarlega mikið í milljörðum. Ég var ósáttur við það á síðasta kjörtímabili, þegar þurfti að spara, að þáverandi ríkisstjórn tók sparnað að stærstum hluta, bæði hlutfallslega og í tölum, út úr heilbrigðiskerfinu. Ég held að það hafi verið mjög óskynsamlegt að bæta í utanríkisþjónustuna, bæta í umhverfismálin og taka svona mikið af heilbrigðismálunum.

Hér koma menn og segja: Af hverju gerið þið ekki það sem forsvarsmenn Landspítalans segja ykkur að gera? Við vitum það bæði, ég og hv. þingmaður, að forsvarsmenn Landspítalans komu ekki á síðasta kjörtímabili og sögðu: Við ætlum að taka miklu meira á okkur en allir hinir. Bætið nú bara í utanríkismálin. Bætið í umhverfismálin. Bætið í eftirlitsstofnanir. Mér finnst þessi málflutningur ekki vera sanngjarn.