145. löggjafarþing — 56. fundur,  16. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[12:17]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er oft dálítið erfitt í þessum sal að maður segir alls konar hluti og talar og heldur að það sé verið að hlusta á mann en fólk heyrir svo ekki það sem maður segir. Ég blés ekkert út af borðinu, heldur sagði ég: Er ekki skynsamlegra að menn fari yfir rekstur og stefnumótun varðandi heilsugæsluna áður en menn henda þremur heilsugæslustöðvum í útboð? Það var það sem ég sagði.

Ég er ekki með neinar kreddur gagnvart einkarekstri ef hann er á þann veg að menn setja um hann skýran ramma, að ekki sé um gróðastarfsemi að ræða heldur „non profit“ stofnanir, við getum alveg skoðað það. En hv. þingmaður er að reyna að þyrla upp því ryki að við höfum skorið heilbrigðisþjónustuna svo mikið niður að í samanburðinum hafi hún komið langverst út; að við höfum gefið í í utanríkismálum og í málaflokkum sem hann nefnir hér. Ég veit ekki betur en að ágætlega hafi verið farið yfir það hvernig sendiskrifstofum var lokað á síðasta kjörtímabili, sem menn eru núna að taka ákvörðun um að opna að nýju. Ef einhver er að gefa í, þá er það núverandi ríkisstjórn. Ég hef í sjálfu sér ekkert á móti því, enda tel ég að sendiskrifstofur og sendiráð styðji vel við alþjóðaviðskipti sem ég vil að nóg sé af hér á landi.

Við þurfum í öllu þessu að átta okkur á því að þessi ríkisstjórn hefur tekið ákvörðun um að eldri borgarar og öryrkjar þurfi ekki meira en 190 þús. kr. nettó á mánuði í grunnlífeyri. Ég hefði viljað eiga samtal við hv. þingmann um það hvort hann telji það í alvöru nóg. Með þeim atkvæðagreiðslum sem hér munu eiga sér stað eru menn að senda þau skilaboð út og um er að ræða þúsundir einstaklinga.