145. löggjafarþing — 56. fundur,  16. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[12:26]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þrjú atriði sem ég vil bregðast við hjá hv. þingmanni. Í fyrsta lagi um hið síðasta þá held ég að væntingar fólks í samfélaginu til hins opinbera séu ekki í takt við fyrirætlanir stjórnvalda. Við erum komin með ákveðna tegund af samfélagi. Við viljum reka velferðarsamfélag á Íslandi og við berum okkur saman við önnur velferðarríki en þar erum við að dragast hratt aftur úr. Ég held ekki að væntingar fólks séu þær að við drögumst enn frekar aftur úr, sem verður óhjákvæmileg afleiðing þeirrar stefnu sem hv. þingmaður nefndi.

Í öðru lagi er ég hjartanlega sammála henni um nálgunina að almannatryggingakerfinu vegna þess að við hvetjum engan með því að svelta hann. Það er einfaldlega þannig. Það á frekar að búa til stuðningsaðgerðir til að styðja við fólk til að komast út á vinnumarkaðinn samhliða því að reka kerfi þar sem fólk getur haft í sig og á af lífeyri sínum. Eins og hv. þingmaður veit þá eru mjög margir á örorku sem geta til dæmis unnið árstíðabundið. Þeir sem eru með alvarlega gigt eiga erfitt með að vinna á veturna því að þá er hún verri en gætu hugsanlega unnið á sumrin. Það er ekkert endilega þannig að vinnumarkaðurinn sé bara galopinn fyrir fólk við þessar aðstæður. Það felst líka mikill óstöðugleiki í möguleikum fólks á að afla sér tekna. Það má þess vegna heldur ekki refsa of hart strax þegar fólk er að afla sér aukatekna eins og við gerum að mínu mati of mikið. Það hefur verið gert lengi. Ég er ekkert að skella skuldinni á þessa ríkisstjórn eina í því sambandi. Menn þurfa að skoða það vandlega.

Í þriðja lagi þetta: Já, auðvitað ræðum við öll mál undir fjárlögum vegna þess að þar er allt undir. Þetta er stóra stefnumörkunin um það sem menn ætla raunverulega að gera, þar sem menn sýna á spilin í öllum málaflokkum. Núverandi ríkisstjórn hefur frekar komið með stefnumörkun í tengslum við fjármuni (Forseti hringir.) en í gegnum lagafrumvörp og þingsályktunartillögur þannig að það er (Forseti hringir.) eðlilegt að umræðan fari fram með þessum hætti.