145. löggjafarþing — 56. fundur,  16. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[15:02]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Herra forseti. Í þessari umræðu um fjárlög sem nú hefur staðið býsna lengi hefur höfuðáherslan af hálfu okkar í stjórnarandstöðunni verið á þrjú stór meginmál: Að tryggja að lífeyrisþegar njóti kjarabóta með sambærilegum hætti og almennt launafólk og verði ekki settir skör lægra en fólk sem byggir afkomu sína á launum á vinnumarkaði.

Í öðru lagi að mætt verði eðlilegum, málefnalegum og vel rökstuddum óskum yfirstjórnar Landspítalans um fullnægjandi fjárframlög til rekstrar spítalans og til viðhalds húsnæði hans svo hann geti gegnt því burðarhlutverki sem honum er ætlað.

Í þriðja lagi að inna eftir því hvort ekki sé að vænta efnda stjórnarmeirihlutans á því fyrirheiti sem hæstv. menntamálaráðherra hefur gefið um að tekjustofnar Ríkisútvarpsins eða útvarpsgjaldið verði ekki skert frá því sem nú er, öfugt við það sem kveðið hefur verið á um í lögum.

Það hefur verið athyglisvert í þessari umræðu að sjá skort á rökstuðningi af hálfu stjórnarliða fyrir óbreyttri stefnu í þessum þremur meginmálaflokkum. Við höfum reyndar séð hvað varðar málefni lífeyrisþega, flótta bresta í lið stjórnarmeirihlutans og einstaka stjórnarþingmenn viðurkenna yfirsjón og mistök varðandi fyrri afstöðu sína. Þess vegna munum við leitast við í þeim atkvæðagreiðslum sem fram undan eru í þinginu að gefa þingmönnum stjórnarmeirihlutans færi á því að svara með skýrum hætti fyrir atkvæði sitt gagnvart þessu þjóðþrifamáli.

Það er hins vegar athyglisvert að sjá hvernig stjórnarforustan hefur forherst við þessa umræðu í viðhorfum sínum til lífeyrisþega og ber þar auðvitað hæst þau fráleitu ummæli hæstv. fjármálaráðherra að það sé sjálfstætt markmið að láta lífeyrisþega standa skör lægra en almennt launafólk og það sé með einhverjum hætti þjóðfélagslega skaðlegt að lífeyrisþegar njóti fulls jafnræðis á við fólk á lágmarkslaunum. Ég held að þau ummæli muni verða honum og stjórnarforustunni til langvarandi minnkunar. Satt að segja er það sérkennilegt að heyra slíkan málflutning þegar fyrir liggur í viðhorfskönnunum að 95% þjóðarinnar eru sammála þeim megináherslum sem við hér í stjórnarandstöðunni höfum talað fyrir um jafnstöðu lífeyrisþega á við fólk á almennum vinnumarkaði.

Við í stjórnarandstöðunni lögðum síðan fram ítarlegar breytingartillögur við fjárlagafrumvarpið sem koma munu til atkvæða við endanlega afgreiðslu þessa frumvarps við 2. umr. Þar mun stjórnarþingmönnum enn og aftur gefast færi á að sýna vilja sinn til þess, lykilmála til jafnstöðu lífeyrisþega við almennt launafólk og til aukinna framlaga til Landspítalans sem og ýmissa annarra þjóðfélagsverkefna eins og hækkunar á þaki greiðslna í fæðingarorlofi upp í 500 þús. kr. og hækkunar á skerðingarmörkum barnabóta. Það er athyglisvert við tillögur stjórnarandstöðunnar til breytinga á fjárlögunum, að þær eru auðframkvæmanlegar. Þær fela vissulega í sér aukin útgjöld en fjölþættar tekjuöflunartillögur eru á móti og mundu verða samfélaginu mjög til góðs og sýna að hægt er að hafa aðra stjórnarstefnu sem er auðframkvæmanleg og fjárhagslega ábyrg.

Ég ætla ekki að endurrekja í þessari stuttu ræðu þau fjölmörgu atriði sem er að finna í tillögum okkar um breytingar á fjárlögunum. Þær eru fjölmargar og horfa til framfara. En ég ætla að ljúka máli mínu með því að minna á mikilvægi þeirrar umræðu sem hér hefur átt sér stað. Þjóðin hefur fengið að sjá einlægan ásetning stjórnarmeirihlutans gagnvart þeim þjóðþrifamálum sem við höfum lagt áherslu á í umræðunni. Það velkist enginn lengur í vafa um það úti í samfélaginu að stjórnarmeirihlutinn hyggst tryggja það með atkvæði sínu að lífeyrisþegar njóti lakari kjarabóta en fólk á almennum vinnumarkaði og jafnt á yfirstandandi ári sem og því næsta. Það er líka orðið ljóst af umræðunni að stjórnarmeirihlutinn sinnir ekki varnaðarorðum yfirstjórnar Landspítalans varðandi rekstrarforsendur næsta árs. Fram undan er hörmungarástand á Ríkisútvarpinu og veruleg hætta á upplausn þeirrar mikilvægu samfélagsstofnunar ef ekkert verður að gert.

Við munum með tillögum okkar hér við 2. umr. fjárlaga tryggja að stjórnarþingmenn þurfi að segja hug sinn gagnvart þessum lykilmálum en við munum líka við frekari tillöguflutning við 3. umr. halda áfram að klappa steininn ef ekki verður bætt í af hálfu stjórnarmeirihlutans milli umræðna. Það er skylda okkar sem stjórnarandstöðu að leiða fram valkost í umræðu um fjárlög, mæla fyrir honum af rökfestu og halda stjórnarliðinu við efnið og tryggja að svara þurfi fyrir ákvarðanir sem ganga gegn almannahag, eins og mörg dæmi eru um í því frumvarpi sem hér er til meðferðar.