145. löggjafarþing — 56. fundur,  16. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[15:20]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé ágætt að hefja þessa ræðu á því að tala aðeins um vinnubrögðin við fjárlagagerð, vinnubrögð sem munu vonandi og væntanlega batna í kjölfar þess að frumvarp um opinber fjármál verði samþykkt og gert að lögum, vegna þess að að mínu mati eru vinnubrögðin við fjárlagafrumvarpið ekki endilega þau bestu í heimi og jafnvel þótt þau væru best í heimi, þá vil ég meina að það sé fyrst og fremst áfellisdómur yfir umhverfinu sem vinnan á sér stað í sem lýsir sér í deilum um vinnubrögð hér á bæ. Ég held ekki að svo undarlega vilji til að akkúrat fólk sem vinni illa lendi á Alþingi, ég held ekki að það sé þannig. Ég held miklu frekar að það sé umhverfið og ramminn utan um það hvernig fjárlög eru gerð, hvernig lagasetningarferlið er sem veldur hatrömmustu deilunum hérna og tilgangslausustu deilunum. Oft fer sú umræða út í vinnubrögð af því að það liggur vel við.

Ég vona vissulega að frumvarp um opinber fjármál komi til með að laga mikið af þeim vandamálum, væntanlega verða einhverjir hnökrar samt í kjölfarið á því eins og við er að búast þegar hlutum er breytt á sama tíma, en burt séð frá því eru nokkur mál sem mér þykir mikilvægt að ítreka hér og impra á í lok umræðunnar. Fyrst og fremst eru það auðvitað hagsmunir öryrkja og aldraðra, sem eru að mínu viti alltaf skildir eftir með einum eða öðrum hætti og það er óþolandi. Öryrkjar geta flestir ekki einfaldlega hætt að vera öryrkjar. Þeir geta ekki fengið launahækkun, þeir geta ekki lagt harðar að sér og þeir sem geta það þó, þeim er yfirleitt hegnt fyrir það með skerðingum. Að mínu mati eru tekjuskerðingarnar hvað versti þátturinn af almannatryggingakerfinu, hvort sem um ræðir ellilífeyrisþega eða örorkubótaþega. Ástæðan fyrir því er að ég tel það kerfi einfaldlega letja og draga úr hvata til vinnu. Ég sé ekki fram á það að með afnámi til tekjutengingar mundi kostnaður við þennan málaflokk aukast, alla vega ekki mikið. Ég held að hann mundi aukast mjög lítið, ef nokkuð yfir höfuð. Hins vegar held ég að það mundi auka frelsi fólks til athafna. Ég held að það mundi auka efnahagsleg umsvif. Ég held að það mundi taka fólk út úr ákveðinni fátæktargildru. Ég vil meina að fátækt sé mjög dýr vegna þess að í henni felst gríðarleg sóun, bæði á þeim hluta vilja einstaklingsins sem lýsir sér í efnahagsumsvifum og því vali sem síðan stýrir framboði og eftirspurn en sömuleiðis einfaldlega því hvernig fólk geti lifað lífi sínu hvað frjálsast.

Að því sögðu tel ég mjög mikilvægt að endurskoða það kerfi og verið er að endurskoða það. En nú hef ég haft þá möntru í nokkuð langan tíma þegar ég ræði við öryrkja og aðra sem eiga bágt að alltaf þarf maður að segja einhvern veginn að það sé nefnd að störfum og hún komi til með að skila bráðum. Þetta lykilorð „bráðum“ er auðvitað mjög teygjanlegt þegar verið er að lofa einhverju inn í framtíðina, það er eiginlega orðið þannig. En ég vil taka fram sérstaklega að ég vona að sú nefnd skili fyrst og fremst góðu verki og ef það krefst tíma þá krefst það tíma. Stundum er það bara þannig. En við þurfum þá að bregðast við þangað til og að mínu mati þurfum við að bregðast við með því að auka útgjöldin í þeim málaflokki, sem ég veit að nýtist ekki eins vel og maður mundi vilja. En í bili finnst mér verða að hafa það vegna þess að öryrkjar geta ekki sett örorku sína á pásu, þeir eru áfram öryrkjar á meðan þeir bíða eftir nefndinni, og einnig ellilífeyrisþegar.

Þegar kemur að Ríkisútvarpinu hef ég löngum haft blendnar tilfinningar til þess að hafa ríkisútvarp en ég hef hins vegar alltaf endað á þeirri hlið að vera hlynntur tilvist ríkisútvarps á Íslandi. Ef við værum í miklu stærra samfélagi þar sem hagfræðikenningarnar virkuðu til hlítar væri ég líklega á móti ríkisútvarpi, nema reyndar ef ég byggi í Bretlandi vegna þess að ég er sérlegur aðdáandi BBC ef út í það er farið, en það er meira svona persónuleg skoðun en einhver hagfræðikenning á bak við það.

Hins vegar í svona litlu samfélagi tel ég eðlilegt og nauðsynlegt reyndar, því miður, að einkaaðilar séu að einhverju leyti í samkeppni við ríkið á einstaka sviðum og þá sér í lagi þegar kemur að fjölmiðlum. Það er auðvitað óvenjulegt en það er margt sem verður óvenjulegt í svo smáu hagkerfi og margt sem einfaldlega stenst ekki þær klassísku kenningar sem ég annars aðhyllist í kenningunni. Raunveruleikinn getur oft orðið mjög frábrugðinn.

Nefskattur er þó sú skattheimta sem mér er hvað verst við. Mér finnst hún mjög vond, eiginlega að öllu leyti, nema því einu að hún aflar tekna. Meðan þetta nefskattsfyrirkomulag er þykir mér mjög mikilvægt að nefskatturinn dugi fyrir rekstri Ríkisútvarpsins en að því sögðu mundi ég frekar líta í framtíðinni til þess að því nefskattsfyrirbæri væri hætt og helst að það væri bannað ef það væri mögulegt. Mér finnst þetta afspyrnuvond tegund af skattheimtu og hún bitnar mest á þeim sem hafa minnstar tekjurnar og sérstaklega þeim sem hafa engar tekjur en þurfa samt að borga einhvern skatt allt í einu.

Ekki verður hjá því komist að nefna tvö mál — ég mundi nefna fleiri ef ég hefði meiri tíma og svo vill fólk náttúrlega fara að ljúka þessari umræðu fyrr en síðar — en það eru fangamálin. Meiri hlutinn leggur til minna en algera nauðsyn. Minni hlutinn leggur til algera nauðsyn, 80 milljónir, meiri hlutinn leggur til 45 milljónir, sem er auðvitað þó nokkuð mikið meira en núll en samt ekki nóg að mínu mati til að koma til móts við lágmarksþarfir fangelsiskerfisins. Ég vona að ekki verði stórslys í þeim málaflokki er fram líða stundir en ég verð að viðurkenna að ég hef áhyggjur af því, einfaldlega sökum fjárskorts. Það er ekki einu sinni spurning um stefnu þó að ég hafi aðrar áhyggjur í þeim efnum líka sem ég ætla ekki út í hérna.

Síðast en ekki síst vil ég nefna eitt af því sem ég tel með því mikilvægara að við fjármögnum með sóma. Það er umboðsmaður Alþingis. Í kenningunni um lýðræðið sem gildir á Íslandi er Alþingi yfirmaður ríkisstjórnarinnar. Alþingi hefur eftirlitshlutverki að gegna og það beitir þessu eftirlitshlutverki með ýmsum leiðum, þar á meðal með hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd en einnig hinni ágætu stofnun, umboðsmanni Alþingis. Umboðsmaður Alþingis, eins og ég sé embættið, er framlenging á Alþingi og ef við fjármögnum þá stofnun ekki nógu vel þá þykir mér það grafa undan trúverðugleika Alþingis, með því að grafa undan trúverðugleika þeirrar hugmyndar að Alþingi eigi að ráða þessu landi en ekki ríkisstjórnin. Nú er það hins vegar þannig að ríkisstjórnin ræður einfaldlega landinu því miður, en það er eitthvað sem við ættum að breyta og ein leiðin til að hjálpa til við að breyta því, alla vega að einhverju leyti yfir eitthvert tímabil, er að hafa umboðsmann Alþingis fjármagnaðan eftir þörfum.

Breytingartillaga minni hlutans kveður á um 15 millj. kr. aukningu til umboðsmanns Alþingis til að hann geti staðið að frumkvæðisathugunum hvað best. Gleymum því ekki að frumkvæðisathuganir reyndust gríðarlega mikilvægar í umfjöllun um hið svokallaða lekamál á sínum tíma og ég veit að það var óþægilegt fyrir ríkisstjórnina en það verður að hafa það. Það er þess vegna sem umboðsmaður Alþingis er til, það er til að vera óþægilegur þegar eitthvað bjátar á og þá bjátaði á og þá þurfti frumkvæðisathugun til. Í sögunni mun það enda að mínu mati sem eitt merkilegasta mál á þeim tilteknu tveimur árum eða svo.

Meiri hlutinn leggur hins vegar til að skorið verði niður um 13 milljónir til umboðsmanns Alþingis og rökstyður það með því að umboðsmaður Alþingis sé núna í húsnæði Alþingis en hafi áður verið í leiguhúsnæði fyrir um 13–14 milljónir, 13,5 millj. kr., upp eða niður eins og gengur og gerist. En í því felst að hunsað er að því fylgir hellingskostnaður að vera í eigin húsnæði. Það er viðhald, kostnaður við mat og við öryggisgæslu. Það er ekki, enn sem komið er, aðgengi fyrir fatlaða hjá umboðsmanni Alþingis, sem er að mínu viti fullkomin hneisa og á ekki að viðgangast. Þetta er sú stofnun sem á að taka við kvörtunum frá borgaranum til Alþingis til að hafa eftirlit með yfirvöldum og ekki er aðgengi fyrir fatlaða. Mér þykir það algerlega fráleitt. Það kostar peninga. Það kostar peninga og hugsunin var meðal annars að nýta þá peninga í sem annars fóru í leigu.

Umboðsmaður Alþingis hefur skýrt sagt frá því margsinnis á mörgum vettvanginum að Alþingi þarf að kveða skýrt á um hver ætlunin er til þeirrar stofnunar. Ég legg til að ætlunin til stofnunarinnar, umboðsmanns Alþingis, sé að hún geti staðið vel að frumkvæðisathugunum og tekið við kvörtunum borgaranna án þess að það sé neitt vandamál. Ég lít á það sem grunnstoð lýðræðisins á Íslandi, hvorki meira né minna, eða eina af þeim. Allur sá gangur mála í sambandi við umboðsmann Alþingis eins og þetta ætlar að reynast, ef atkvæðagreiðslan fer eins og ég vona að hún geri ekki en gerir sennilega, þá þykir mér það grafa undan trúverðugleika Alþingis og mér finnst að þingheimur allur ætti að taka það vandamál mjög alvarlega.