145. löggjafarþing — 56. fundur,  16. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[15:30]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf):

Virðulegur forseti. Nú fer að síga á seinni hlutann og jafnvel að hilla undir lok á þessari ágætu umræðu um fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar í annarri umferð. Ég vil ekki lengja umræðuna að óþörfu en ástæða er til að súmmera hana aðeins upp. Þann 8. desember — fyrir einhverjum dögum, við erum hætt að bera skynbragð á tímann og telja dagana hér í umræðunni — kynntu minnihlutaflokkarnir breytingartillögur við fjárlagafrumvarpið. Þar lögðum við áherslu á nokkur atriði sem við höfum rætt mikið í þessari umræðu. Aðaláherslurnar þar voru að tryggja að örorku- og ellilífeyrisþegar mundu njóta sambærilegra hækkana og þeir sem lægst hafa launin. Það er fullkomlega sjálfsögð tillaga, það er ekki nema eðlilegt og við lítum á það sem eðlilegar lagfæringar eða tillögu til að standa við algjört grundvallarréttlætismál. Það hefur komið fram í umræðunum hér að fulltrúar stjórnarflokkanna eru ekki sammála um þetta og það er miður.

Við lögðum einnig til, í breytingartillögum minni hlutans, að bæta í fjármagn til Landspítalans. Kannanir hafa sýnt að almenningur er sammála því að hann sé lykilstofnun í íslensku heilbrigðiskerfi sem við viljum standa við bakið á. Þetta er lykilstofnun sem hefur þurft að glíma við mikinn niðurskurð hin seinni ár sem að mörgu leyti hefur bitnað á getunni til að halda starfseminni sterkri og byggja hana upp. Í breytingartillögu minni hlutans er verið að leggja til það fjármagn sem stjórnendur spítalans telja algjört lágmark til að standa undir óbreyttri þjónustu.

Í þessum breytingartillögum gerum við ráð fyrir að bæta inn í fjárfestingarverkefni til menntunar. Til að mynda, þó að það séu ekki háar fjárhæðir, til málefna innflytjenda á Íslandi þar sem örfáar krónur eða milljónir — sem eru mjög lágar upphæðir í stóra samhenginu, þegar við tölum um fjárlög — geta breytt svo miklu í að hjálpa fólki við að verða sjálfstæðir þátttakendur í íslensku samfélagi sem hlýtur að vera keppikefli okkar allra.

Það virðist vera nokkuð ljóst, og hefur orðið skýrara í umræðunum, að stjórnarmeirihlutinn og hæstv. ríkisstjórn hefur aðrar áherslur en minni hlutinn. Áherslurnar eru ekki síst á tekjuhliðinni. Mögulega er, eins og við höfum orðað það, verið að afsala sér eða lækka tekjur ríkisins á sama tíma og ekki er verið að byggja upp til framtíðar. Ekki er verið að endurstyrkja mikilvægustu stofnanir velferðarkerfisins sem hafa átt undir högg að sækja og hafa þurft að þola mikinn niðurskurð eftir hrun; niðurskurð sem allir skildu að var eðlilegur á þeim tíma.

Hugmyndir minni hlutans — þegar við leggjum fram þessar breytingartillögur, sem vissulega eru ekki nýtt frumvarp heldur einungis lagfæringar á því allra helsta — eru að troða inn í fjárlagafrumvarpið, eins og það kemur af kúnni, þ.e. frá hæstv. ríkisstjórn, hugsun um réttlæti og um mennskara samfélag. Í 2. umr. hefur því miður ekki borið á miklum skilningi á því að þessar tillögur séu ekki stundargaman eða sérstakt áhugamál minnihlutaflokkanna, heldur séu hugsaðar sem almannamál og komi samfélaginu öllu til góða. Hv. þingmenn stjórnarflokkanna hafa því miður flestir gert sitt til að tala þessar tillögur niður. Sá sem hér stendur er bjartsýnismaður að eðlisfari og telur enn talsverðar líkur á því að menn sjái að sér þegar kemur að atkvæðagreiðslu. Og ég verð að segja að ég hlakka til hennar.

Það er eiginlega ekki hægt að súmmera upp þessa umræðu sem vissulega er orðin löng enda er fjárlagafrumvarpið og 2. umr. um fjárlög helsta mál þingvetrarins. Þetta er stærsta og flóknasta mál hverrar ríkisstjórnar og hér sjást allar pólitískar áherslur hennar. Ekki er hægt að súmmera þetta upp án þess að tala um hvernig umræðan hefur þróast og hvernig vinnubrögðin hafa verið. Því miður virðumst við vera föst í þeim árlega hring að fjárlagafrumvarpið er unnið og lagt fram af hæstv. ríkisstjórn. Þá fyrst taka aðrir flokkar og alþingismenn við að rýna frumvarpið, skoða málin, reyna að átta sig á stöðunni, koma með tillögur um betrumbætur og gagnrýna það sem er gagnrýnisvert o.s.frv. Síðan koma breytingartillögur, bæði frá hæstv. ríkisstjórn og hv. fjárlaganefnd, og það verður að segjast eins og er að í ár voru þessar breytingartillögur óvenjumargar, fleiri tugir ef ekki öðrum hvorum megin við hundraðið, óvenjuháar fjárhæðir, fleiri milljarðar, og það hefur flækt umræðuna.

Kannski er það þessi mikli fjöldi breytingartillagna sem gerði að verkum að frumvarpið tafðist mjög lengi á leið sinni inn í þingið. Það hefur líka haft slæm áhrif á umræðuna vegna þess að við höfum verið að ræða málin í kapphlaupi við jólin, ef svo má segja, og er mjög slæmt yfirbragð á því. Umræðan hefur síðan einkennst af þeim vinnubrögðum sem við í Bjartri framtíð höfum viljað gagnrýna hér á Alþingi, að það er meiri hlutinn sem ræður, telur ekki þörf á því að leita samráðs eða eiga samtal við aðra. Minni hlutinn er argur og vill þetta samtal, vill í það minnsta vita hvar hann stendur, en þegar umræðan fer alltaf á þann pólinn að það sé ekkert við menn að ræða o.s.frv. þá er ekki nema eðlilegt, því miður, að upp úr sjóði. Þessi vinnubrögð eru Alþingi til vansa. Auðvitað berum við öll einhverja ábyrgð á þeim en það verður að segjast eins og er að meiri hlutinn og yfirstjórn þingsins ber ábyrgð á því að vinnubrögðin verði betri, að við náum einhvern veginn að standa undir þeirri umbótakröfu sem er í samfélaginu.

Samfélagið vill umbætur, ekki bara í störfum okkar á þingi heldur almennt í samfélaginu. Ef það er eitthvað sem hrunið og skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis kenndi okkur þá er það að við viljum, þurfum og treystum okkur í umbætur. Því miður tel ég að þessi vinnubrögð, þessi skortur á umbótum hér á Alþingi, séu merki um að þingheimur sé eftirbátur annarra í samfélaginu og er ástæða til að gagnrýna það.

Við í Bjartri framtíð erum mjög stolt og sátt við innlegg okkar í umræðuna, við stöndum heils hugar á bak við breytingartillögur minni hlutans. Við höfum flutt einar sjö stórskemmtilegar, fróðlegar og stórmerkilegar þingræður í umræðunni og teljum þær vera mikilvægt innlegg. Eins og ég segi þá líður væntanlega að atkvæðagreiðslu. Sá sem hér stendur, bjartsýnismaðurinn eins og ég lýsti hér áður, hlakkar til þeirrar atkvæðagreiðslu og vonast til þess að niðurstaðan úr henni verði jákvæð og samfélaginu öllu til heilla.