145. löggjafarþing — 56. fundur,  16. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[17:32]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það sem er ánægjulegast við þessi fjárlög er að við getum bætt í marga liði sem við í Framsóknarflokknum börðumst fyrir á síðasta kjörtímabili. Jöfnuður hefur aldrei verið meiri, eins og áður hefur komið fram, og við setjum mikið fjármagn í heilbrigðiskerfið og til aldraðra og öryrkja. Mér fannst ankannalegt að heyra þingmenn stjórnarandstöðunnar kvarta undan því að orðið hefðu miklar breytingar í fjárlaganefnd. Ég held að það sé jákvætt. Ég held að það sýni styrk Alþingis, en við, flestir þingmenn, höfum lengi talað fyrir því að efla Alþingi, og svo fannst mér líka ankannalegt að heyra menn kvarta yfir því að fá safnliðina aftur til Alþingis. Einhver fullyrti að þeir ættu betur heima hjá embættismönnunum. Ef það er eitthvað sem hefur sýnt sig að hafi mistekist hjá síðustu fjárlaganefnd, síðustu ríkisstjórn, þá var það að útvista safnliðunum. (Forseti hringir.) Það hefur bitnað gríðarlega á landsbyggðinni og ég fagna því að meiri hluti fjárlaganefndar (Forseti hringir.) hafi stigið þau skref að fá þá aftur til fjárlaganefndar.