145. löggjafarþing — 56. fundur,  16. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[17:38]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka fyrir þá vinnu sem átt hefur sér stað í fjárlaganefnd við að yfirfara fjárlagafrumvarpið og fyrir ágætissamstarf sem við höfum átt við nefndina til breytinga á frumvarpinu eftir því sem við höfum fengið í hendur nýjar upplýsingar. Síðan eru hér áherslubreytingar frá nefndinni.

Mig langar að vekja athygli á nokkrum stórum atriðum sem mér finnast skipta miklu máli. Tekjur ríkisins vaxa á milli umræðna um um það bil 7 milljarða. Það skiptir miklu máli. Virðisaukaskattstekjurnar eru að aukast töluvert mikið. Það sýnir að það er drift í íslensku samfélagi. Laun eru að hækka um um það bil 7 milljarða þegar upp verður staðið við afgreiðslu þingsins, um 7 milljarða umfram það sem við sáum fyrir að við gætum sett í laun og verðlagsbætur á næsta ári. Það sem er í þessu frumvarpi og það sem kemur með þessum breytingartillögum er skýrasta merkið sem við getum fengið á okkar svæði í heiminum um land sem er að taka svo rækilega við sér, kaupmáttur vex langt umfram það sem við getum almennt haft væntingar um. Við erum að afgreiða (Forseti hringir.) tillögur um það hvernig við getum skipt ábatanum af því að okkur er farið að ganga betur. Og allt (Forseti hringir.) rifrildið í þessari umræðu hefur snúist um (Forseti hringir.) að það eigi að skipta þessu einhvern veginn öðruvísi. En missum ekki sjónar á því að hér er allt á uppleið.