145. löggjafarþing — 56. fundur,  16. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[17:40]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég vil fá að nota tækifærið og þakka hv. fjárlaganefnd og þingheimi öllum fyrir þá miklu vinnu sem farið hefur fram við fjárlagafrumvarpið. Ég vil líka fá að nota tækifærið og rifja aðeins upp orð sem féllu á síðasta kjörtímabili frá fulltrúa Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem vöktu mig verulega til umhugsunar. Hann sagði að þetta væri í frysta skipti sem hann kæmi til lands þar sem allir væru þeirrar skoðunar að auka ætti fjárframlög og standa vörð um velferðarkerfið. Hann taldi það einstakt varðandi þennan þingheim og raunar íslenskt samfélag hvernig við höfum tekið höndum saman og haldið utan um velferðarkerfið. Það sjáum við líka í umræðu um fjárlagafrumvarpið fyrir árið 2016. Ágreiningurinn hefur ekki staðið um að við viljum ekki setja meiri fjármuni, heldur bara hversu mikla. Ég held að við getum (Forseti hringir.) enn á ný tekið höndum saman, bætt í (Forseti hringir.) og haldið áfram að gera betur og stuðla að því að gera Ísland jafnvel að betra samfélagi en það er nú þegar.