145. löggjafarþing — 56. fundur,  16. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[17:43]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég fagna því sérstaklega að við séum að ganga hér til lýðræðislegrar atkvæðagreiðslu um fjárlög fyrir árið 2016 eftir mjög langar umræður stjórnarandstöðunnar um það mál síðustu daga og vikur.

Það er gríðarlegt fagnaðarefni að með þessum fjárlögum erum við enn á ný að halda áfram að bæta innviði samfélagsins, bæði þegar kemur að velferðarmálum, heilbrigðismálum og öðrum þáttum og einnig þegar kemur að málum sem snúa að landsbyggðinni. Má þar til að mynda nefna ljósleiðaravæðingu alls landsins, hafnarmál, flugvelli og fleiri atriði.

Það er óneitanlega holur hljómur í því þegar stjórnarandstaðan hefur komið hér alla umræðuna og gerir hér enn og talar um það hvernig þessi ríkisstjórn sé að ráðast að öldruðum og öryrkjum þegar tölurnar sýna allt aðra hluti.

Ef við berum okkur saman við það sem er að gerast undir stjórn stjórnarandstöðunnar hér í Reykjavíkurborg sjáum við þar er verið að skera niður fyrst og fremst til aldraðra og öryrkja, að taka máltíðir af öldruðum og öryrkjum og þar birtist í verki sama stefna og birtist okkur á (Forseti hringir.) síðasta kjörtímabili hjá þessum flokkum. Ef hægt er að gagnrýna (Forseti hringir.) núverandi stjórnvöld fyrir eitthvað þá er það það að við (Forseti hringir.) höfum ekki dregið nægilega hratt (Forseti hringir.) til baka (Forseti hringir.) niðurskurð síðustu ríkisstjórnar á síðasta kjörtímabili. (Gripið fram í.)Það er það sem þessi ríkisstjórn er að gera og mun halda áfram (Forseti hringir.) að gera það og það er fagnaðarefni.