145. löggjafarþing — 56. fundur,  16. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[17:46]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég hlýt að koma hér upp og mótmæla því sem sagt er ítrekað um þessa atkvæðagreiðslu og hefur komið fram í umræðunni, að ríkisstjórnin sé að brjóta á rétti fólks sem fær bætur frá almannatryggingakerfinu. Við höfum það bundið í lög að bætur hækka til samræmis við launaþróun í landinu nema vísitala neysluverðs hækki meira en laun. Svo er ekki núna. Þess vegna er öryrkjum og öldruðum tryggð 9,7% hækkun sem tekur gildi núna um áramótin og bætur hækkuðu síðast 1. janúar síðastliðinn um 3%. Þegar þessar tvær hækkanir eru teknar saman er augljóst að á 12 mánaða tímabili hækka bætur umfram laun í landinu. Samt koma menn hér upp ítrekað og bera það á ríkisstjórnina í raun að vera að brjóta lög.

Hvernig væri nú að fara að gleðjast yfir því að við skulum yfir höfuð vera í þeirri stöðu að geta stóraukið (Forseti hringir.) bæði kaupmátt bótanna (Forseti hringir.) og á sama tíma sett aukna fjármuni í innviði landsins og þar með talið (Forseti hringir.) í mannauðinn með stórauknum launagreiðslum, svo miklum að það (Forseti hringir.) telur á fjórða tug milljarða í þessu fjárlagafrumvarpi?