145. löggjafarþing — 56. fundur,  16. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[18:04]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Mér misbýður hvernig er talað um fyrrverandi ríkisstjórn. (LRM: Gott hjá þér.) Vitið þið af hverju? Af því að ég var 18 ára þegar hrunið varð 2008. Ég hafði aldrei kosið nokkurn tíma. Það var ekki þeirri ríkisstjórn að kenna hvernig fór. Nei, það var ríkisstjórnarröð Davíðs Oddssonar að kenna hvernig fór. (Gripið fram í: … segja sitt álit á þessu.) Mér finnst umræðan, sem er búin að vera hér í dag og undanfarna daga um það hvernig auði er misskipt, kjarni þess að vera í pólitík. Þetta er ástæðan fyrir því að við erum með eitthvað annað en einræði. Stundum held ég að við séum með einræði. Þannig lítur það út, virðulegi forseti og hæstv. forsætisráðherra. (LRM: Heyr, heyr!)