145. löggjafarþing — 56. fundur,  16. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[18:08]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég ætla að taka undir með hv. síðasta ræðumanni. Ég held að menn ættu að horfa til þess sem þeir eru að gera í þessum fjárlögum. Í þessum fjárlögum er verið að taka ákvörðun um að skilja eldri borgara og öryrkja eftir. Það er verið að taka ákvörðun um að þessir hópar fái einungis tæplega 200 þús. kr. nettó til að draga fram lífið. Það er ákvörðun sem verið er að taka hér. Þessir hópar eru engu bættari með stærilætisræðum eins og við höfum heyrt hjá stjórnarflokkunum.

Hvernig væri að útskýra það málefnalega fyrir þessu fólki hvers vegna ríkisstjórnin treystir sér ekki til að bæta kjör þessara hópa á sama tíma og ákvörðun er tekin um að lækka veiðigjöld, losa sig við raforkuskatt og auðlegðarskatt? Það væri ræða, frá þeim þingmanni sem hana mundi flytja, sem vert væri að hlusta á en ekki þeir stælar sem hér hafa verið. Þið skuldið þessum aðilum skýringu.