145. löggjafarþing — 56. fundur,  16. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[18:13]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það er nokkuð til umhugsunar fyrir okkur að ekki er langt síðan við samþykktum hér í salnum áætlun um ríkisfjármál þar sem var lagt upp með það hver útgjaldaaukningin hjá ríkinu yrði þegar horft væri fram í tímann. Það virðist vera sem við séum að fara fram yfir þau mörk sem þar voru sett þar sem aukning útgjalda ríkisins til þeirra málaflokka sem ríkið sinnir og einkum og sér í lagi vöxtur í launum og bótum er umfram það sem áætlað var.

Það er þess vegna ekki sanngjarnt (Gripið fram í.) að koma hér og segja að ríkisstjórnin standi fyrir einhvers konar aðför að launafólki og þeim sem þiggja bætur. Það er ekki sanngjarn málflutningur. Það er gömul saga og ný að tekist er á um slíka hluti í þjóðfélaginu en það þarf að kalla hlutina sínum réttu nöfnum. (Forseti hringir.) Það má vel segja og menn geta haft þá skoðun að það eigi að hækka meira en þá bendi ég á þá staðreynd (Forseti hringir.) að fyrir liggur áætlun um ríkisfjármál og við erum komin þar fram yfir.