145. löggjafarþing — 56. fundur,  16. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[18:17]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Það stendur ekkert til að slaka á í skatteftirliti og jafnt og þétt hefur verið bætt í það á undanförnum árum, þ.e. eftirlitið sjálft. En þetta er eins popúlísk tillaga og getur orðið og það að áætla 4 þús. millj. kr. án þess að hafa neitt fyrir sér í því annað en bara það að menn vita að það eru skattsvik þarna úti er ekki ábyrgt.

Ég var að vonast til þess að þessu yrði sleppt, maður hefur séð það reglulega í gegnum tíðina hjá vinstri flokkunum þegar erfitt er að láta enda ná saman í útgjaldatillögunum að þessu er spilað út. En þessi leikur er augljóslega ekki búinn. En þetta er ekki ábyrgt, virðulegi forseti, og það er ekkert annað að gera en að segja nei við þessu.