145. löggjafarþing — 56. fundur,  16. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[18:20]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Nú um áramót rennur út að óbreyttu sérstakur raforkuskattur sem stóriðjan hefur greitt. Við leggjum til að hann verði framlengdur og þar með aflað frekari tekna fyrir ríkissjóð.

Það er mjög athyglisvert að sjá forgangsröðun ríkisstjórnarinnar þegar kemur að skattlagningu á atvinnulífið. Hún leggur skatta á aðföng lítilla fyrirtækja og þekkingarfyrirtækja með því að leggja skatta á laun en lækkar skatta á aðföng stóriðjufyrirtækja þar sem raforkuskatturinn er og hún lækkar veiðigjöldin og ekki hirðir hún um gjaldtöku af ferðamönnum til þess að byggja upp innviði í samfélaginu heldur tekur almennt skattfé í það og niðurgreiðir með þeim hætti þá atvinnugrein. Þannig að skattstefna ríkisstjórnarinnar þegar kemur að atvinnulífinu er gríðarlega ósanngjörn. Eðlilegt væri að halda þessum skatti áfram og fullkomlega rökrétt í ljósi þeirrar þarfar sem er.