145. löggjafarþing — 56. fundur,  16. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[18:31]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Minni hlutinn leggur til að veiðigjöld verði hækkuð um 3 milljarða. Það er með ólíkindum hvernig hæstv. forsætisráðherra skýlir sér alltaf bak við það að lækkun veiðigjalda sé vegna lítilla og meðalstórra útgerða, menn eru svo aumingjagóðir að það hálfa væri nóg. En aumingjagóðir gagnvart hverjum? Stórútgerðinni í landinu. Það hefur ekkert verið unnið markvisst í því að koma til móts við litlar og meðalstórar útgerðir. Þetta er lækkun hjá stóru útgerðunum sem eru að skila tugum milljarða í hagnað og greiða sér á annan tug milljarða í arð. Þau geta alveg borgað hærri veiðigjöld, þessi stóru útgerðarfyrirtæki sem mala gull. Lækkun olíuverðs skilar dágóðum fjármunum, eins og kom fram, í rann þessara aðila. En þarna liggja áherslur þessarar ríkisstjórnar. Það má ekki hrófla við stórútgerðinni í landinu því að þar liggur kjósendaflóran hjá þeim.