145. löggjafarþing — 56. fundur,  16. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[18:39]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Undanfarin missiri hefur á vettvangi stjórnar Ríkisútvarpsins tekist þverpólitísk samstaða fulltrúa allra flokka um stuðning við Ríkisútvarpið og nýja yfirstjórn þess og sú samstaða hefur átt samhljóm í áherslum hæstv. menntamálaráðherra um að útvarpsgjald verði ekki lækkað frekar. Hér gefst stjórnarliðum færi á að standa með fulltrúum sínum í stjórn Ríkisútvarpsins og með hæstv. menntamálaráðherra. Það er illmögulegt að átta sig á þeirri óvild sem virðist ríkja í garð Ríkisútvarpsins víða í stjórnarflokkunum, en mjög mikilvægt er að við stöndum vörð um þessa mikilvægu menningarstofnun. Ég vitna í fallegt viðtal um daginn við Matthías Johannessen, fyrrverandi ritstjóra Morgunblaðsins, þar sem hann lýsti svo vel mikilvægi Ríkisútvarpsins fyrir íslenska þjóð í fortíð, nútíð og framtíð. Ég segi já.