145. löggjafarþing — 56. fundur,  16. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[18:52]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Þessi tillaga gengur út á að halda óbreyttu útvarpsgjaldi. Hún gengur út á það að við ætlum ekki að lækka gjaldið á næsta ári. Hún mun samt sem áður, eins og hún hljóðar, þýða að Ríkisútvarpið þarf að skera niður hjá sér, einfaldlega vegna þess að laun hafa hækkað á árinu 2015. Það finnst stjórnarmeirihlutanum ekki nóg og heimtar frekari niðurskurð en kallar jafnframt eftir framtíðarsýn. Stjórnendur og stjórn Ríkisútvarpsins hefur eytt öllum sínum tíma í að sinna skammtímalausnum við að reka stofnunina frá degi til dags. Á nokkrum fundum hafa þeir komið til fjárlaganefndar til að fara yfir reksturinn. Það er augljóst og það sjá allir að verið er að þvinga fram stefnubreytingu með fjársvelti. Það mun örugglega bitna mest á landsbyggðinni. Ég segi já.