145. löggjafarþing — 56. fundur,  16. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[19:05]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Tryggingagjaldið lækkar í þessum fjárlögum. Það lækkar um 0,14% í samræmi við áður samþykkt lög. En það lækkar ekki jafn mikið og við gerðum ráð fyrir í ríkisfjármálaáætlun vegna þess að um það var samið við aðila vinnumarkaðarins að við mundum frekar fara í lækkun tekjuskatts. Ég er hins vegar dálítið hugsi yfir því að við ræðum hér í dag annars vegar um hugmyndir um að stórauka í bótagreiðslur en sama fólk talar jafnframt um að stórlækka tryggingagjaldið. Tryggingagjaldið er í raun og veru sá tekjustofn sem við höfum til þess að standa undir greiðslum í almannatryggingakerfinu. Þess vegna finnst mér að þetta tvennt fari ekki neitt sérstaklega vel saman í umræðunni.

Mín sýn til lengri tíma litið er sú að við eigum að setja frekari lækkun tryggingagjaldsins í forgang og horfa til gildistíma þeirra kjarasamninga sem eru nýfrágengnir til þess að lækka gjaldið að nýju. En sá hluti sem tengist atvinnuleysi hefur lækkað. (Forseti hringir.) Það liggur líka fyrir út frá Fæðingarorlofssjóðnum að ef menn ætla, og ég tel að við eigum að stefna að því, að auka við réttindi til fæðingarorlofstöku mun þurfa að hækka aftur þann hlut. Annars mun það ekki standa undir sér.