145. löggjafarþing — 56. fundur,  16. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[19:10]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegi forseti. Hér eru greidd atkvæði um þann lið sem varðar framkvæmdir á Alþingisreitnum og þær 75 milljónir sem ákveðið hefur verið að setja í byggingu sem rísa á að tillögu meiri hluta fjárlaganefndar í anda teikninga frá Guðjóni Samúelssyni af heimavist, 100 ára gamalla teikninga. Það er háðulegt fyrir meiri hlutann hér í þinginu að ætla að samþykkja þetta. Það er afskaplega háðulegt. Ég get eiginlega varla staðið hérna inni fyrir kjánahrolli yfir því að menn skuli virkilega ætla að fara í gegnum þessa atkvæðagreiðslu og styðja þessi ósköp. Það er algerlega ömurlegt. Þar fyrir utan hefur málaflokkurinn og málið sjálft verið undir forsæti forsætisnefndar. Því miður hefur frá því að þessi tillaga leit dagsins ljós ekki verið unnt að fjalla um hana í hv. forsætisnefnd, sem er annars vissulega full ástæða til að menn ræði og taki upp hin skrýtnu vinnubrögð meiri hluta fjárlaganefndar í þessu máli, sem ættuð eru úr mjög skrýtnum (Forseti hringir.) hugarheimi hæstv. forsætisráðherra.