145. löggjafarþing — 56. fundur,  16. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[19:22]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég hygg að ef samband hins háa Alþingis og hæstv. ríkisstjórnar væri í samræmi við það sem maður mundi búast við í lýðræðissamfélagi þar sem Alþingi er æðsta stofnunin mundu hv. þingmenn greiða atkvæði með þessari tillögu og gegn tillögu um að skera niður hjá umboðsmanni Alþingis. Umboðsmaður Alþingis er umboðsmaður okkar. Þetta er stofnun sem heyrir beint undir Alþingi. Það er spurning hvort við tökum hlutverk okkar sem eftirlitsaðila með ríkisstjórninni alvarlega eða ekki. Ég átta mig á því að núna er meiri hluti þingsins í flokkum ríkisstjórnarinnar. Það er óheppilegt af nákvæmlega þessum sökum. Við verðum að taka þetta samband til endurskoðunar. Ég hvet hv. fjárlaganefnd eindregið eins og aðrir hafa gert hér á undan mér til að endurskoða þessar tillögur milli 2. og 3. umr.