145. löggjafarþing — 56. fundur,  16. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[19:26]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Þessi tillaga gerir ráð fyrir 70 millj. kr. framlagi til græna hagkerfisins. Á síðasta kjörtímabili árið 2012 var samþykkt einróma á Alþingi þingsályktun um það merkilega verkefni. Nú þegar reynir á sem aldrei fyrr í kjölfar loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna teljum við eðlilegt að endurvekja á nýjan leik þessa hugmynd sem allir flokkar gátu staðið að á síðasta kjörtímabili en hefur koðnað niður í höndum núverandi ríkisstjórnar eins og flestar aðrar framsæknar atvinnuþróunarhugmyndir og nýsköpunarhugmyndir á sviði umhverfismála.