145. löggjafarþing — 56. fundur,  16. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[19:28]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegi forseti. Aldrei hefur verið jafn augljós þörf á markvissum aðgerðum í umhverfismálum og þörf á að skilgreina og byggja upp þetta samfélag sem grænt hagkerfi. Ég sat í þessari nefnd á síðasta kjörtímabili ásamt fleiri þingmönnum sem hélt á milli 50 og 60 fundi sem voru um það að skilgreina sóknarfæri Íslendinga þegar kæmi að því að byggja upp grænt hagkerfi, byggja upp græna samkeppnissjóði, grænan iðnað og þar voru augljós sóknarfæri á mörgum sviðum. Verulega góð vinna og skörp sýn sem var birt í niðurstöðum nefndarinnar sem rataði síðan inn í þingsályktunartillögu sem var samþykkt með öllum greiddum atkvæðum. Svona vil ég vinna. Ég veit að svona vilja fleiri vinna. Að við setjum okkur markmið, ætlum að fara eitthvað, við ætlum að setja pening í það. Þess vegna kom mér það svo ótrúlega á óvart að eitt það fyrsta sem ríkisstjórnin gerði var að hætta við allt þetta (Forseti hringir.) og setja hluta af þessum peningum í að lakka gluggapósta á gömlum byggingum. (Forseti hringir.) Fullkomið skilningsleysi á þessu mikilvæga verkefni. Það er munur á flokkum í pólitík og hann kemur ekki síst fram í þessari atkvæðagreiðslu.