145. löggjafarþing — 56. fundur,  16. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[19:31]
Horfa

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Hér er um það að ræða að minni hluti fjárlaganefndar leggur til fjórföldun á fjárframlagi til háskóla- og rannsóknastarfsemi í stað þeirrar 25 millj. kr. hækkunar sem gert er ráð fyrir í breytingartillögum meiri hlutans. Þessi upphæð er hugsuð til þess almennt að styrkja háskólastarfsemi í landinu og við teljum að þar sé veruleg þörf á að gefið sé í og að svo hafi verið um nokkra hríð. Til dæmis má láta þess getið að bæði Háskóli Íslands og Háskólinn á Akureyri hafa um árabil tekið við fleiri nemendum en þeir hafa fengið greitt fyrir sem segir sína sögu um þörfina fyrir þá þjónustu sem háskólarnir veita. Í því ljósi er þessi tillaga borin fram og ég segi að sjálfsögðu já.